154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta eru bara ríkisreikningar aftur í tímann. Það er hægt að fletta þessu upp. Þetta er aftur til 1995. Auðvitað er ekki kominn ríkisreikningur fyrir 2023 en miðað við fjárlög eins og þau voru þá, og það er ekki búið að taka tillit til fjáraukalaganna sem er verið að glíma við núna, þá voru útgjöld ríkisins á síðasta ári 30,3%, sem er undir langtímameðaltali. (BergÓ: Fjáraukinn eftir.) — Fjáraukinn eftir og það þarf þó nokkuð til að hækka um prósentu eða hluta af prósentu. Og höfum það í huga að langtímatekjur ríkissjóðs miðað við verga landsframleiðslu eru 30,5%. Tekjurnar í fyrra voru 27,4%. Það á líka eftir að taka tillit til þessara 100 milljarða sem bættust við en á sama tíma var landsframleiðslan hærri þannig að það breytir hlutfallinu ekkert endilega sérstaklega mikið. Landsframleiðslan hækkar, tekjur ríkissjóðs hækka líka á sama hátt, í sama hlutfalli, þannig að ef tekjur eru 27,4% miðað við langtímatekjur upp á 30,5% þá er ríkið langt undir meðaltalinu. Það er vísbending um það hvað er að gerast miðað við að útgjöldin eru eins og þau eru.

Þegar við sjáum dæmi um vanfjármögnun í Landhelgisgæslunni, í lögreglunni, í fangelsunum og þess háttar, þá verður maður að spyrja sig: Hvar er þá allur peningurinn sem verið er að eyða svona rosalega mikið umfram efni? Það er alla vega ekki í þessum málaflokkum, ef ég skil málflutning hv. þingmanns rétt. En á sama tíma er ég alveg sammála því að það er líklegt að það sé einhvers staðar verið að eyða um efni fram og í einhvern óþarfa. Okkur hefur bara ekki tekist að finna nægilega augljós dæmi um það. Það finnst mér alveg merkilegt, sérstaklega af því að það er flokkur í ríkisstjórnin sem alla vega montar sig af því að reyna að gera það, en í gegnum núna 30 ár þá hefur það bara ekki tekist.